Innlent

Mikilvægur fundur hjá WHO

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir mikla þýðingu hafa fyrir landið að fundur framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) skuli haldinn hér á landi. "Til dæmis fáum við hér í tengslum við fundinn fjölda ráðamanna frá erlendum ríkjum sem jafnvel þekkja lítið til landsins og fæstir hafa hingað komið áður. Þetta skiptir til dæmis máli vegna baráttu okkar fyrir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna," sagði Jón og bætti við að einnig fengju heilbrigðisráðherrar erlendra ríkja tækifæri til að kynnast skipulagi heilbrigðismála hér. Jón sagði mikilsvert hversu mikinn aðgang Íslendingar hefðu að starfi WHO, en Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, var kosinn formaður framkvæmdanefndar stofnunarinnar í maí síðastliðnum. "Ég held að þetta sé örugglega í fyrsta sinn sem Íslendingar fara með formennsku í stofnun Sameinuðu þjóðanna," bætti hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×