Innlent

Frumleg lausn byggðavanda

Það er frumleg nálgun hjá sveitastjórum í sjávarbyggðum að leggja til að veiðigjald á kvóta renni til byggðanna og að skuldir þeirra í félagslega íbúðakerfinu verði afskrifaðar. Þetta segir Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarmanna, eftir fund með sveitastjórunum í fyrradag. Þingflokkur framsóknarmanna hefur rætt hugmyndirnar og þær verða skoðaðar nánar á næstunni. "Þarna er um háar fjárhæðir að ræða," segir Hjálmar, "en sveitastjórarnir undirbjuggu þetta vel og færðu fín rök fyrir máli sínu. Tekjur þessara sveitarfélaga hafa vissulega minnkað vegna hagræðingar sem fylgdi upptöku kvótakerfisins. Það eru ákveðin rök." Hjálmar segir að ákvörðun um þetta verði ekki tekin á næstunni en að þetta sé ný nálgun á lausn fjárhagsvanda sjávarbyggða og því sé það þess virði að skoða hana vandlega. Talið er að byggðirnar myndu fá hátt í tíu milljarða króna ef skuldir þeirra vegna félagslega íbúðakerfisins yrðu lagðar niður og árlegar tekjur af veiðigjaldi yrðu um 700 milljónir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×