Innlent

Gjöld hækka í Mosfellsbæ

Framsóknarmenn í Mosfellsbæ gagnrýna að skuldir á hvern bæjarbúa verði komnar yfir 600 þúsund og að heildarskuldir bæjarins verði um 4,3 milljarðar króna á næsta ári. Hækkun á gjaldskrám sem samþykktar hafi verið á miðvikudag komi harðast niður á barnafjölskyldum og þeim efnaminni. Hún sé langt umfram almenna launaþróun. Þröstur Karlsson, oddviti framsóknarmanna, segir skuldir bæjarins hækka þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir um tæpra tólf prósenta tekjuaukningu á árinu. Stofnanir bæjarfélagsins séu svo sveltar af fjármunum að þær geti tæplega sinnt hlutverki sínu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir í tilkynningu að gert sé ráð fyrir þriggja til fjögurra prósenta hækkun þjónustugjalda að jafnaði. Það sé langt undir þeim hækkunum sem verði á launum. Þjónustugjöld sem nefnd séu í töflu séu í takt við og ívið lægri en í nágrannasveitarfélögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×