Innlent

Ljósagangur af eldingum síðustu daga

Síðustu daga hefur gengið mikið þrumuveður suður og suðaustur af landinu. Þórður Arason, jarðeðlisfræðingur á sérþjónustudeild veðursviðs Veðurstofunnar, segir mesta veðrið hafa verið á fimmtudag. "Þetta kemur fyrir allnokkrum sinnum á hverjum vetri og í sjálfu sér ekki óvenjulegt," segir Þórður og bætir við að þrumuveðrið orsakast af óstöðugu lofti. "Þegar kalt loft er ofan á hlýrra lofti, leiðir það til þess að hlýrra loftið rís. Þá myndast þrumuveður." Þórður segir vetrarþrumuveður algengari hér en sumarþrumuveður. "En það er öfugt í heitum löndum þegar þrumuverður eru helst bundin við heitasta tíma ársins." Guðni Kolbeinsson, kennari og þýðandi, var á leið frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur seint á fimmtudagskvöld og lenti í miklum ljósagangi í Þrengslunum. "Stundum var þetta svo að var bjart sem á degi. Samkennari minn einn sem kom í bíl nokkuð á eftir mér sagði eina hafa verið svo öfluga að það hefði verið eins og flassbirta, þannig að hann fékk ofbirtu í augun og blindaðist í smástund. Ég lenti nú ekki í svo öflugu, en man ekki eftir að hafa lent í svona miklum ljósagangi vegna eldinga áður," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×