Innlent

Róttækar aðgerðir gegn skattsvikum

Tillögur um aðgerðir gegn skattsvikum sem nefnd á vegum Alþings hefur lagt fram eru þær róttækustu sem komið hafa fram í þessum efnum, að mati Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingar. Hún lagði fram þingsályktunartillögu um að nefndin skoðaði umfang skattsvika. Nefndin leggur meðal annars til að ákæruvald í skattsvikamálum verði fært til embættis Skattrannsóknarstjóra, sérhæfðar eftirlitsdeildir verði stofnaðar sem hafi eftirlit með stórfyrirtækjum sem eru í miklum umsvifum erlendis og að lögfest verði afdráttarlaus skylda banka og fjármálastofnana til að láta skattyfirvöldum í té upplýsingar sem þau óska eftir. Jóhanna hefur farið fram á að skýrsla nefndarinnar verði tekin til umræðu þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir áramót. Hún væntir þess að stjórnarliðar sýni vilja til þess að lögfesta ákvæði sem þurfi til að loka strax fyrir þessar smugur. Samfylkingin lagði fram tillögu við fjárlagagerðina í haust um að fjárveitingar til skatteftirlits yrðu auknar um tugi milljóna króna en ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillöguna. Jóhanna segir að tillagan verði lögð aftur fram og hún vonast til að fjármálaráðherra sjái sjálfur mikilvægi þess að efla skatteftirlit. "Þetta snýr bæði að bættu skatteftirliti og svo þarf að fara í það að lögfesta ýmis ákvæði til að loka fyrir smugur í lögum sem hafa verið nýttar til skattundanskota." Jóhanna segir mjög aðkallandi að taka á þessum lögbrotum þar sem um gríðarlega fjármuni sé að ræða. Þeir samsvari sennilega kostnaði við rekstur alls skólakerfisins í landinu. Það séu fyrirtæki og fjármagnseigendur sem hafi þessar fjárhæðir af almenningi þar sem launamenn hafi engin tækifæri til skattundanskota. "Ástandið er orðið þannig að einstaklingar greiða um 83 prósent af öllum skattgreiðslum á landinu en fyrirtæki og fjármagnseigendur miklu minna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×