Viðskipti innlent

Hægði á hækkun eignaverðs

Heldur hægði á hækkun eignaverðs í október samkvæmt hálffimmfréttum KB banka. Tólf mánaða hækkun eignaverðsvísitölu bankans fer úr 25,5% niður í 20,5%. Ástæða þess liggur í að eignaverðsvísitalan lækkaði um 2,2% að raunvirði í október að sögn bankans. Hlutabréfaverð lækkaði um 11,5% í október. Svo mikil lækkun hefur veruleg áhrif á vísitöluna en hlutabréf vega um 20% í vísitölunni. Einnig var gengi skuldabréfa fremur dapurt í október og hækkaði ávöxtunarkrafa skuldabréfa lítillega eða var óbreytt í mánuðinum. Þannig var það einungis fasteignamarkaðurinn sem hækkaði að raunvirði en fasteignaverð hækkaði um tæpt 1% og náði sú hækkun ekki að yfirvinna mikla lækkun á hlutabréfamarkaði. Líklegt er að heldur sé að draga úr á hækkun eignamarkaða en tólf mánaða hækkun eignaverðs hefur verið frá 18% upp í 25% frá miðju sumri 2003. Hækkun eignaverðsvísitölunnar síðastliðið eitt og hálft ár er miklu meiri en hækkun eignaverðs í síðustu efnahagsuppsveiflu. Mest náði eignaverðshækkunin 15% hækkun á tímabilinu frá áramótum 1999 fram til byrjun árs 2000. Ljóst er að jafn langvarandi og mikil hækkun eignaverðs hefur töluverð áhrif á einkaneyslu í gegnum auðsáhrif samkvæmt KB banka, bæði vegna söluhagnaðar á eignum, hærri eiginfjárstöðu og aukins veðrýmis eigna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×