Erlent

Ár liðið frá handtöku Saddams

Ár er liðið frá því að Saddam Hússein var gómaður í holu í Írak. Örlög hans eru enn óráðin, en á meðan yrkir hann ljóð og uppreisnarmönnum vex ásmegin. Þegar Saddam náðist stóð til að efna til réttarhalda yfir honum sem fyrst, þar sem hann átti að svara til saka fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Síðan er liðið ár og enn virðist langt í réttarhöldin. Á meðan er Saddam haldið ásamt fleiri föngum á ótilgreindum stað þar sem hermt er að hann uni hag sínum vel, yrki ljóð, sinni garðinum sínum og lesi í Kóraninum. Óljósar fregnir berast af hungurverkfalli, og hafa fulltrúar frá Rauða krossinum verið fengnir til að kanna hvort sannleikskorn leynist í þeim fregnum. Verjendur Saddams undirbúa vörn og segja stöðu hans ljósa: hann sé enn löggiltur forseti Íraks. En færri muna eftir yfirlýsingu Jays Odiernos majórs sem sagði handtöku Saddams marka þáttaskil, að innan hálfs árs yrði uppreisnin liðin hjá og daglegt líf yrði komið í samt lag. Sannleikurinn er því víðsfjarri: undanfarinn mánuð hafa uppreisnarmenn gert að meðaltali hundrað árásir á dag - helmingi fleiri en fyrir hálfu ári síðan. Fleiri bandarískir hermenn hafa fallið frá því að Saddam náðist en féllu á meðan hann lék lausum hala og bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur ákveðið að fjölga í hersveitunum í Írak; innan fárra vikna verða hermennirnir orðnir hundrað og fimmtíu þúsund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×