Viðskipti innlent

Vill breytt markmið

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að breyta eigi lögum um Seðabanka Íslands. Samkvæmt þeim hefur Seðlabankinn það hlutverk að stuðla að verðstöðugleika. Einar Oddur telur að afleiðingar aðgerða Seðlabankans séu alltof dýrkeyptar fyrir útflutningsatvinnugreinar þjóðarinnar. "Ef það er viðhorf Seðlabankans að lifa svona strangt eftir textanum, og textinn er bara einn, að koma í veg fyrir verðþenslu á Íslandi, þá er ekkert annað en að breyta þessum lögum. Setja þá í staðinn að Seðlabankanum beri að stuðla að styrku efnahagslífi," segir hann. "Ef þeir túlka textann þannig að þeir hafi jafnvel skyldu til að rústa efnahagslífið til að ná þessu markmiði þá getum við ekki lifað við það. Það er mjög rangt mat ef menn halda það að íslensk útflutningsframleiðsla og samkeppnisgreinar geti lifað við þetta gengi sem er núna. Hvað þá heldur ef þeir eiga að lifa við síhækkandi gengi árin 2005 og 2006. Það boðar skelfingu fyrir okkur öll og við megum ekki haga okkur svoleiðis," segir Einar Oddur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×