Undanþágan gegn stefnu stjórnvalda
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir það geðþóttaákvörðun, sem fari þvert gegn stefnu stjórnvalda, að veita Bobby Fischer undanþágu um dvalarleyfi hér á landi. Honum líst illa á framtíðina fái útlendingar ekki að koma inn í landið eða dvelja í því, nema með undantekningum. Vegna ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að veita Bobby Fischer undanþágu um dvalarleyfi hafa spurningar vaknað um það hvaða reglur gildi um slíkt og undir hvaða kringumstæðum þeim sé beitt. Ragnar bendir á að undanþágur í þessu sambandi geti komið til álita við sérstakar aðstæður, en þær þurfi vera með þeim hætti að réttlætanlegt sé að beita slíkum ákvæðum. Þær fara þvert á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar og það skapar slæmt stjórnar- og réttarástand sem vekur óánægju að sögn Ragnars. Ragnar segir að ef ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að veita Bobby Fischer dvalarleyfi hér á landi sé upphafið að breyttum viðhorfum þeirra til málefna útlendinga, þá fagni hann því. En ef framtíðin verði sú að reglur verði það strangar að nánast enginn komist inn í landið og fái dvalarleyfi, nema samkvæmt einstaka undantekningum og geðþóttaákvörðunum stjórnvalda, þá líst Ragnari illa á málið.