Innlent

Náðu fljótt tökum á eldinum

Eldur kom upp í hlöðu á bænum Vorsabæjarhóli í Gaulverjabæjarhreppi um klukkan ellefu í fyrrakvöld. Eldurinn logaði í heyi í hlöðunni sem er áföst fjósi. Hvorki mönnum né skepnum var meint af og gekk slökkvistarf vel. Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir vind hafa verið hagstæðan því hann hafi staðið af fjósinu en fyrsta verk slökkviliðsins var að reykræsta fjósið með yfirþrýstingsblásara til að tryggja öryggi skepnanna sem þar voru. Líklegt þykir að eldurinn hafi kviknað út frá vinnuljósi sem fallið hafði í heyið þótt það hafi ekki verið staðfest. Kristján segir mikinn reyk hafa komið frá heyinu. Heykvíslar voru notaðar til að færa heyið til og vatni var sprautað á logann. Að sögn Kristjáns tók ekki nema tuttugu mínútur að ná góðum tökum á eldinum. Hlaðan og fjósið skemmdust ekki og tókst að bjarga stórum hluta af heyinu. Kristján segir að miklu hafi munað um að bóndinn sprautaði vatni á eldinn þar til slökkviliðið kom á staðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×