Innlent

Bæjarstjóri Kópavogs fær biðlaun

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi gagnrýna að Hansína Ásta Björgvinsdóttir, nýr bæjarstjóri í Kópavogi, skuli fá greiddan einn mánuð í biðlaun. Gunnar I. Birgisson, formaður bæjarráðs, segir ómaklega vegið að Hansínu. Samfylkingin tellur að þar sem Hansína Ásta sé aðeins ráðin til sex mánaða ríki engin óvissa um starfslok hennar og því sé þessi biðlaunaréttur fullkomlega óeðlilegur. Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni er bent á að almennt hafi sveitarstjórar rétt á sex mánaða biðlaunum eftir 4 ára starf, ef þeim sé sagt upp í kjölfar kosninga. Starfssamningur við Hansínu var lagður fyrir bæjarstjórn í fyrradag. Samfylkingin lagði til að biðlaunarétturinn yrði felldur út úr samningnum en tillagan var felld. Gunnar I. segir ekkert óeðlilegt við ráðningarsamninginn. Gagnrýnin sé á misskilningi byggð því inni í biðlaununum sé greiðsla fyrir orlof. Samfylkingin undrast ennfremur að Hansína hafi sjálf samþykkt ráðningarsamninginn við sjálfa sig. Telur flokkurinn umhugsunarefni hvort hún hafi ekki verið vanhæf til þess. Gunnar I. segir að Hansína hafi þurft að samþykkja samninginn við sjálfa sig. Kannski megi deila um það hvort hún hafi verið vanhæf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×