Lífið

Uppáhaldshúsið næstum tilbúið

Stefán Snær Konráðsson, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hefur brennandi áhuga á öllum íþróttum og þessvegna verður gaman hjá honum í lok ágúst. "Það finnst kannski einhverjum það skrýtið en uppáhaldshúsið mitt á höfuðborgarsvæðinu er nýja íþróttahúsið í Hofsstaðamýri í Garðabæ sem verið er að leggja lokahönd á. Húsið verður tekið í fulla notkun í haust og kemur til með að efla íþróttastarf í minni heimabyggð en ég er auðvitað mikill áhugamaður um það. Svo er þetta hús líka fallegt og vel hannað. Það stendur milli Hofsstaðaskóla og Fjölbrautarskóla Garðabæjar og tillit var tekið til umhverfisins svo það er nánast eins og það hafi alltaf verið þarna." Stefán segir íþróttahúsið bæta úr brýnni þörf. "Það var mikil þörf fyrir íþróttahús á þessu svæði. Það er mikið af börnum og unglingum í Garðabæ og góð íþróttaaðstaða er nauðsynleg fyrir þau og til að skapa afreksmenn í íþróttum. Stjarnan í Garðabæ, liðið mitt, verður með aðstöðu og æfingar í þessu húsi. Ég æfi nú svosem engar íþróttir lengur en vonast til að fá að trimma eitthvað í húsinu og hreyfa mig. Svo hafa börnin mín öll verið í Stjörnunni og ég sæki alla leiki sem þau spila svo húsið á eftir að verða mitt annað heimili um leið og það er tilbúið," segir Stefán og á sjálfsagt eftir að senda einhverja afreksmenn úr þessu íþróttahúsi á ólympíuleika áður en langt um líður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×