Viðskipti innlent

Öll íslensku flugfélögin nefnd

Íslenskt flugfélag er orðað við eitt stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu. Breskir fjölmiðlar segja orðróm um yfirtökutilboð á kreiki. Avion Group, Icelandair og Iceland Express eru öll nefnd sem hugsanlegir kaupendur. Orðrómurinn um yfirtöku easyJet olli því að gengi bréfa í félaginu hækkaði í gær og rauk upp í morgun, hækkaði um sextán prósent. Sjö prósent hlutafjárins í félaginu skiptu um hendur í gær og er talið að nýir fjárfestar, líklega hópur Íslendinga, hafi jafnvel þegar tryggt sér meira en þrjú prósent hlutafjárins sem þýðir að þeir verði að gera grein fyrir hlutafjáreign sinni innan tíðar. Sömu sérfræðingar segja engar líkur á að Íslendingarnir ætli sér einungis að eiga lítinn hlut í easyJet, sé eitthvað að marka kaupgleði annarra íslenskra fjárfesta eins og Baugs og Kaupþings. Tíu prósenta hlutur hljóti að teljast lágmark og líkur séu á að þeir vilji meira. Blaðamenn Guardian telja líklegast að Avion Group, móðurfélag flugfélagsins Atlanta, Icelandair eða Iceland Express séu hér á ferð. Skemmst er að minnast þess þegar eigendur flugfélagsins Atlanta stofnuðu móðurfélag utan um eignir sínar á dögunum og gáfu því nafnið Avion Group. Þeir keyptu um leið breska flugfélagið Excel Airways. Samkvæmt traustum heimildum fréttastofunnar hefur Avion Group hins vegar ekki sýnt áhuga á easyJet. Stjórnendur Icelandair lýstu því yfir í ágúst að stefnt væri að sókn og vexti á alþjóðamarkaði. Þegar fréttastofan innti Guðjón Arngrímsson, talsmann Flugleiða, eftir því hvort að Icelandair væri að kaupa easyJet vildi hann ekki tjá sig um málið á þessu stigi dagsins, eins og hann orðaði það. Viðmælendur fréttastofunnar segja hugsanlegt að Flugleiðum sé haldið fyrir utan viðskiptin og að þau fari fram í gegnum Oddaflug, eignarhaldsfélag í eigu Hannesar Smárasonar, aðaleiganda og stjórnarformanns Flugleiða. Ekki náðist í Hannes fyrir fréttir þar sem hann var á fundi. Aðrir fjölmiðlar segja orðróm á kreiki um hugsanlega yfirtöku easyJet og nefna til sögunnar keppinautinn Ryanair. En nú undir hádegi neituðu talsmenn fyrirtækisins því að hafa nokkurn áhuga á því að kaupa easyJet. Fyrr frysi í helvíti.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×