Innlent

Tveir síbrotamenn dæmdir

Tveir síbrotamenn voru í morgun dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til fangelsisvistar og er hvorugur dómurinn skilorðsbundinn. Tæplega fertugur maður var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og þjófnað. Hann réðst á konu á heimili hennar í Hafnarfirði og sló hana í andlitið þannig að hún hlaut glóðarauga og bólgur á nef og vör. Einnig tók hann ýmislegt smálegt ófrjálsri hendi af heimili hennar og er honum gert að endurgreiða það og bera allan sakarkostnað. Dómurinn er óskilorðsbundinn í ljósi þess að frá árinu 1983 hefur hann hlotið tuttugu dóma fyrir refsilagabrot og verið í allt dæmdur til að sæta fangelsi í 113 mánuði og 19 daga, aðallega fyrir brot á hegningarlögum og umferðarlögum. Þá var annar maður dæmdur í fimm mánaða fangelsi, líka óskilorðsbundið, vegna innbrots í íbúðarhús í Garðabæ ásamt öðrum manni. Þaðan stálu þeir hlutum að andvirði tvær milljonir króna. Þessi maður á líka langan sakaferil, eða sjö dóma, og hefur hann setið í fangelsi í samanlagt 55 mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×