Innlent

Fór yfir strikið með ummælum sínum

"Mín skoðun er að það hafi áhrif á trúverðugleika forsætisráðherra þegar það sem hann lætur hafa eftir sér sem slíkur er dæmt dautt og ómerkt," segir Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Jóns Ólafssonar í meiðyrðamáli gegn Davíð Oddssyni. Ummæli Davíðs voru dæmd dauð og ómerk í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Jón Ólafsson vildi ekki tjá sig um málið í gær en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnaði niðurstöðu Héraðsdóms. Sigríður Rut segir að komin sé staðfesting á að þessi ummæli forsætisráðherra hafi farið yfir strikið. Forsætisráðherra muni þá væntanlega gæta orða sinna í framtíðinni. Það skipti máli þegar forsætisráðherra, stöðu sinnar vegna, sé jafnvel í yfirmannsstöðu yfir skattinum, stjórnsýslunni eða rannsakendum. "Það verður að teljast alvarlegt að hafa upp slík ummæli um mann sem hefur aldrei verið dæmdur af dómstólum. Þetta er náttúrlega merkilegur dómur að því leyti að forsætisráðherra eins og aðrir á að virða grundvallarmannréttindi um að fólk er saklaust uns sekt er sönnuð fyrir dómi." Davíð getur ekki áfrýjað málinu til Hæstaréttar þar sem hann lét þingsóknina falla eftir að hafa skilað greinagerð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×