Skoðun

Netaðgangur og nauðhyggja Símans

Skyldur Símans - Björgvin G. Sigurðsson Aðgengi að fyrsta flokks netaðgangi er grundvallaratriði þegar kemur að vali fólks á búsetu. Sé ekki um að ræða aðgang að háhraða nettengingu er byggðin annars flokks og ekki samkeppnishæf við þær sem búa betur að þessu leyti. Í ljósi þess hvernig samfélagið hefur þróast hlýtur það að teljast til grunnþarfa í samfélaginu að hafa kost á góðri nettenginu enda miðast þjóðfélagið við það. Þarna hafa stjórnvöld brugðist skyldu sinni á meðan þjóðareignin, Síminn, fjárhættuspilar með fé almennings í áhættufjárfestingum. Yfir 22.000 Íslendingar hafa ekki aðgang að háhraða nettengingu og eru þar með án tækifæra til að nýta sér möguleika fjarskiptabyltingarinnar. Þessar tölur koma fram í svari samgönguráðherra við fyrirspurn minni um málið. Þar með er íbúum þessara byggðarlaga haldið frá raunverulegri þátttöku í  þjóðfélaginu, fjarnámi, fjarvinnslu og öllu viðunandi aðgengi að möguleikum og tækifærum sem netið og upplýsingatæknin gefur kost á. Um er að ræða dreifbýlið og smærri byggðarlög sem Síminn sér ekki hagnaðarvon í að tryggja aðgang að háhraða nettengingu. Þetta mál snertir ekki bara íbúa dreifbýlisins og smærri byggðarlaga, heldur ekki síður þær tugþúsundir Íslendinga sem eiga annað heimili í sumar- og heilsárshúsum úti um allt land. Síminn er hins vegar haldinn þeirri nauðhyggju að hann sé ekki þjónustufyrirtæki íslensku þjóðarinnar heldur harðsvírað gróðafyritæki. Á meðan ríkisvaldið hristir ekki upp í fyrirtækinu og skikkar til aðgerða er ekki breytinga að vænta. Á dögunum lagði ég fram þingsályktunartillögu á Alþingi til að breyta þessu. Hún fjallar um að Alþingi feli samgönguráðherra að undirbúa frumvarp til laga sem tryggi að allir landsmenn eigi kost á háhraða nettengingu óháð búsetu. Háhraða nettenging flokkast sem grunnþjónusta í nútímasamfélagi rétt eins orkuveita og símaþjónusta. Síminn metur það svo að ekki sé arðvænlegt að leggja ADSL-tengingar í byggðarlögum þar sem íbúar eru færri en 150. Gróðasjónarmiðin ráða för en kjarni málsins er sá að það er skylda samfélagsins að tryggja öllum Íslendingum háhraða nettengingu óháð búsetu. Án þess er ekki um að ræða jafnstöðu við aðra um þátttöku í nútímasamfélagi. Stjórnvöld eiga þess t.d. kost að skylda Símann til að veita, eða hafa milligöngu um að veita, slíka þjónustu eða gefa fjarskiptafyrirtækjunum kost á að bjóða í slíkan þjónustu pakka. Á meðan svo er að mikill fjöldi Íslendinga býr ekki við háhraðatengingar og góðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni eru byggðir þeirra ekki að fullu keppnishæfar þegar kemur að vali fólks og fyrirtækja til búsetu. Byggðirnar eru annars flokks í þessu tilliti og íbúum þeirra er mismunað af hálfu samfélagsins.



Skoðun

Sjá meira


×