Erlent

Átta ára dómur fyrir misþyrmingar

Bandaríski hermaðurinn Ivan Fredericks var í gær dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir að misþyrma föngum í fangelsinu Abu Ghraib í Írak. Fredericks, háttsettasti hermaðurinn til að verða ákærður fyrir fangamisþyrmingar, játaði sök í fyrradag. Dómurinn yfir honum í gær er sá þyngsti sem hefur verið kveðinn upp í kjölfar uppljóstranna um misþyrmingar í Abu Ghraib. Tveir meðlimir herlögreglusveitar Fredericks hafa áður verið dæmdir, annar þeirra fékk átta mánaða dóm en hinn var dæmdur til eins árs fangelsisvistar. Þrátt fyrir að Fredericks hafi viðurkennt sök sína neitaði hann því að hann og félagar hans bæru einir ábyrgð á misþyrmingunum. Hann sagði að fangarnir hefðu verið niðurlægðir svo að þeir sem yfirheyrðu þá næðu meiri upplýsingum upp úr þeim. Fredericks sagði að þegar hann hefði rætt við yfirmenn sína um misþyrmingarnar hefðu þeir sagt honum að hlýða skipunum leyniþjónustumanna hersins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×