Lífið

Reynir að láta verkfallið líða

Auður Elísabet Helgadóttir er ellefu ára og vissulega ein þeirra sem ætti að vera að auka við þekkingu sína með hjálp kennaranna í skólanum sínum, sem er Háteigsskóli. Hún kveðst vera orðin hundleið á verkfallinu og vonar að það leysist sem fyrst og kennararnir fái einhverja launahækkun. "Mér finnst leiðinlegt að fá ekki að hitta skólafélagana og sakna þeirra sem búa langt í burtu," segir hún og spurð um hegðun bekkjarins almennt svarar hún: "Stundum erum við æst en oftast góð." Skemmtilegustu greinarnar þykja henni þær verklegu, smíði, saumar og heimilisfræði, auk íþrótta. Hún kveðst hafa haldið áfram með handavinnuverkefnin sín heima. "Ég er búin að klára húfu sem ég var byrjuð á fyrir verkfallið og er að prjóna trefil," segir hún kankvís og dregur líka upp fínasta dúk sem hún er að sauma í fallega rós með kontórsting og lykkjuspori. Hún segist líka hafa gert eitt og annað skemmtilegt í verkfallinu eins og að skoða heimili nóbelskáldsins á Gljúfrasteini og fara í heimsókn á Þjóðminjasafnið. Auður Elísabet er líka svo heppin að hafa fleiri verkefni. Hún ber út Fréttablaðið og DV í tveimur götum í Hlíðunum ásamt bróður sínum og vaknar því ávallt klukkan sex á morgnana, hvort sem skólinn kallar eða ekki. Nú er bróðir hennar Arnar Erwin á ólympíumótinu í skák og þá er það mamman sem hjálpar stelpunni sinni við blaðaburðinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×