Innlent

Andstaðan hefur minnkað

Andstaðan við fjölmiðlalögin hefur minnkað samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem gerð var um síðustu helgi. Samkvæmt henni segjast um 71 prósent þeirra sem tóku afstöðu ætla að greiða atkvæði gegn fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu en í fyrri könnunum blaðsins hefur andstaðan við málið mælst á bilinu 77 til 83 prósent. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segist telja að ýmsar ástæður séu fyrir minnkandi andstöðu við lögin. "Eftir að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar er umræðan orðin öðruvísi en áður - hún er flóknari," segir Gunnar Helgi. "Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka beitt sér meira í málinu undanfarið. Forsætisráðherrann hefur átt nokkuð góða viku og kom til dæmis nokkuð vel út í nýlegu viðtali í Kastljósi og það má gera ráð fyrir því að þetta hafi þjappað sjálfstæðismönnum meira saman í málinu." Gunnar Helgi segir að eflaust séu til dæmi um fólk sem sé móti lögunum en líka á þeirri skoðun að forsetinn hafi ekki heimild eða eigi ekki að synja lögum staðfestingar, því vilji það ekki greiða atkvæði gegn lögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×