Lífið

Bankarnir brjóta lög

Alþýðusamband Íslands segir að bankarnir brjóti lög þegar þeir krefjast gjalds af fólki sem vill greiða íbúðalán sín upp áður en lánstíma lýkur. Þá líkir sambandið því við átthagafjötra að lántakandi verði að vera í viðskiptum við bankann áratugum saman til að halda góðum vöxtum á íbúðalánum sínum. Alþýðusamband Íslands segir jákvætt að íbúðalánakjör færist nær því sem gerist í nágrannalöndum okkar. Fólk verði hins vegar að vega vel og meta kostina sem í boði eru og hafa í huga að það sé alltaf hætta á að kjörin færist í fyrri horf vegna fákeppni á bankamarkaði. Tilvist Íbúðalánasjóðs skipti því sköpum til að veita bönkunum aðhald. ASÍ bendir á tvennt sem það telur orka tvímælis í tilboðum bankanna. Í fyrsta lagi er það uppgreiðslugjaldið sem bankarnir ætla að taka ef lánið er greitt upp áður en lánstíma lýkur. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir sambandið telja það óheimilt með hliðsjón af lögum um neytendalán að bankarnir taki þetta gjald. ASÍ hyggst skrifa bönkunum bréf þess efnis á næstu dögum. Ólafur Darri segir að í kjölfarið komi til greina að leita álits hjá Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitinu. Í öðru lagi gerir sambandið athugasemdir við ströng skilyrði um að lántakandinn sé í viðskiptum við bankann. Þessu megi líkja við átthagafjötra sem fólk verður að taka með í reikninginn. Menn séu að taka ákvörðun um að festa sig í allt að fjörutíu ár og og ef þeir vilji færa viðskipti sín fyrir þann tíma, þurfi þeir að sæta því að lánakjörin hækki verulega.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.