99 prósent fólks á aldrinum 16 til 24 ára eiga eða hafa aðgang að farsíma, samkvæmt nýrri neytendakönnun Póst- og fjarskiptastofnunar. Á mánudag var opnaður nýr vefur Póst- og fjarskiptastofnunar á slóðinni www.pfs.is og voru niðurstöður neytendakönnunar stofnunarinnar kynntar í tilefni af því. Meðal þess sem fram kemur er að flestir viðskiptavinir sem hafa heimilissíma og fyrir fram greidd farsímakort hjá Símanum eru á aldrinum 55 til 75 ára meðan þeir eru flestir á aldrinum 25 til 34 ára hjá Og Vodafone. Algengast var meðal viðskiptavina Símans að fólk skýrði val sitt á fyrirtækinu með því að "hafa alltaf verið þar", en verðlagning réði helst vali hjá viðskiptavinum Og Vodafone. Rúm 20 prósent aðspurðra sögðust einhvern tímann hafa skipt um þjónustuaðila fyrir heimilis- og farsíma en tæp 80 prósent höfðu aldrei skipt. Helsta ástæða þess að fólk hafði skipt var verð þjónustunnar, en ákvörðun þeirra sem aldrei höfðu skipt skýrðist af ánægju með þjónustuna. Gallup gerði könnunina í síma 26. febrúar til 10. mars. 1.350 manns af öllu landinu voru í úrtakinu, sem valið var með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá.
Við notum vefkökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni á Vísi. Einnig til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum, bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.