Innlent

Úttekt á brunavörnum

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra skýrði frá því á Alþingi í gær að hún hefði falið Brunamálastofnun að gera úttekt á brunavörnum og eldvarnaeftirliti hjá fyrirtækjum í svipuðum rekstri og Hringrás ehf eftir brunann fyrr í vikunni. Brunamálastofnun á að skila tillögum um hvort ástæða sé til að breyta lögum til að draga úr líkum á því að slíkir atburðir endurtaki sig. "Stofnunin á að skila úttekt sinni á ástandinu fyrir 16. janúar og tillögum til lagabreytinga 15. febrúar." Ráðherra sagði að sérstaklega væri ástæða til að kanna hvort ástæða sé til að taka upp nánari samvinnu hlutaðeigandi aðila til að tryggja skilvirkni. Sigríður Anna sagðist fagna góðri samæfingu lögreglu, slökkviliðs og annara sem komu að málinu og tóku margir þingmenn undir það. Orð sín lét ráðherra falla í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu en hún vitnaði til fréttar Fréttablaðsins þar sem skýrt var frá því að eldvörnum væri ábótavant hjá á þriðja hundrað fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×