Viðskipti innlent

Bók um hagfræði og tónlist

Ágúst Einarsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, hefur ritað bók um hagræn áhrif tónlistar á Íslandi. Í bókinni er að finna hagrænar rannsóknir Ágústs á þjóðhagslegu gildi tónlistar en einnig stutt æviágrip fimmtíu manna sem sett hafa svip sinn á íslenskt tónlistarlíf. Ágúst segir að margt í niðurstöðunum kunni að koma á óvart. "Þessi bók leiðir í ljós að tónlistin er verulega umfangsmikil í þjóðhagslegu samengi og skilar miklum verðmætum í þjóðarbúið," segir Ágúst. "Þarna kemur skýrt í ljós að allt það sem eflir tónlist og tónlistarkennslu í landinu er einstaklega hagkvæmt," bætir hann við. Ágúst kemst að þeirri niðurstöðu að menning standi undir um fjórum prósentum af landsframleiðslu og bent er á í niðurstöðukafla bókarinnar að þetta sé stærri hluti af landsframleiðslunni en veitustarfsemi og ál- og kísiljárnframleiðsa. Þá er þetta þrefalt stærri hluti hagkerfisins en landbúnaður. Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands gefur bókina út.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×