Skoðun

Um ofsafengnu framfaratrúna

  Ég var að lesa grein þína um ofsafengnu framfaratrúna, og rak örlítið í vörðurnar við setninguna "Nú ætla ég ekki að leggja lesti frjálshyggjunnar að jöfnu við grimmdaræði kommúnismans og nasismans." Nú ætla ég ekki heldur beinlínis að leggja "lestina" að jöfnu við "grimmdaræðið" - enda tveir hlutir ekki eins nema allir eiginleikar þeirra séu þeir sömu. Hinsvegar hljótum við að nálgast hugmyndir um grimmdaræði frjálshyggjunnar á hennar eigin forsendum - einkaframtakinu, og starfi ríkisvaldsins fyrir einkaframtakið. Þar koma auðvitað fyrst upp í hugann stríð Bandaríkjamanna fyrir olíunni og olíuleiðslunum. Og svo þrælkunarbúðir einkaframtaksins víða í þriðja heiminum, og samstarf einkaframtaksins og hins frjálshyggjusinnaða (eða bara markaðsdrifna - svo við leyfum Svíum nú að vera með) um að búa til aðstæður þar sem ýmisleg kúgun getur þrifist undir hlífiskildi "frelsisins". En auðvitað hlýtur vestræna frjálshyggjuríkið að hygla eigin þegnum, enda er neysla þeirra ekki síður undirstaða ríkisins/einkaframtaksins heldur en þrælarnir austur í Asíu.   Ég er ekki endilega viss um að grimmdarverk frjálshyggjunnar sem fyrirbæris séu neitt skárri en grimmdarverk Sovétríkjanna eða þriðja ríkisins, þó þau séu ekki skipulögð með miðstýringu. Þessi sjálfvirkni frjálshyggjunnar lætur grimmdarverk hennar virðast síður grimmileg, þau virðast ekki jafn yfirveguð eða fyrirhuguð vegna þess að þau eru afleiðing kerfis en ekki eiginlegs valdboðs - enda firra stórfyrirtækin sig reglulega ábyrgð, vísa á undirverktaka og svo framvegis - en grimmdarverk þeirra eru ansi helvíti slæm þrátt fyrir undanbragðataktana.   Það er léleg afsökun frjálshyggjumanna við grimmdarlegum afleiðingum frjálshyggjunnar að þessi grimmdarverk séu ólögleg, eða að þeim finnist líka að það ætti að banna þau. Peningar spyrja ekki hvert þeir mega fara eða hvað þeir mega gera, peningar láta sér nægja að framkvæma og er alveg sama þó einstaka þrælabúðastjóri lendi í fangelsi, eða einhverjar fáeinar ómerkilegar skrifstofublækur hjá Enron lendi í grjótinu - yfirgnæfandi meirihluti forstjóranna lifir af, og peningarnir skipta einfaldlega um hendur (í færri og færri hendur reyndar) ef einhver lendir í grjótinu. Valdið í Sovét var neglt niður, en vald dagsins er ekki bara fljótandi, það fossar fram eins og Ölfusá í leysingum - og það er alltaf vor.   Bestu kveðjur,   Eiríkur Lestu Nýhil: nyhil.org  Og Fjallabaksleiðina - Með bakfjall í framrassinum! - blog.central.is/amen



Skoðun

Sjá meira


×