Innlent

Ásakanir án innistæðu

"Mér finnst þetta mjög alvarleg tíðindi fyrir íslenskt réttarkerfi vegna þess að ákæra hefur í för með sér slíka röskun á högum fólks að það verður að gera kröfu til ákæruvaldsins um að skýrt komi fram í hverju brot er falið og gegn hverju og hverjum," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Hún segir það grundvallarmannréttindi að geta varist ákærum ekki síst af hálfu hins opinbera ákæruvalds. Þess vegna þurfa rökin að vera mjög skýr. Það virðist vanta upp á það í þessu máli og það finnst mér mjög alvarlegt eftir þriggja ára rannsókn." Ingibjörg Sólrún telur verðugt að skoða þrennt ef niðurstaða Hæstaréttar verður á sama veg og í undirrétti. "Í fyrsta lagi verður að skoða hvort ekki komi til greina að aðskilja rannsóknarvald og ákæruvald. Í öðru lagi þarf að ganga úr skugga um hvort þeir sem unnu að málinu séu til þess bærir eða hæfir að vinna með málið áfram. Þeir hafa sagt að þeir muni gefa út nýja ákæru. Ég dreg í efa að þeir séu til þess bærir. Í þriðja lagi vakna spurningar um það hver beri ábyrgð á því að farið sé fram með svo þungar ásakanir án þess að fyrir þeim sé nægileg innistæða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×