Innlent

Áfall fyrir ákæranda

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og formaður vinstri grænna segir það áfall eftir víðtæka og harkalega aðgerð af hálfu lögreglu og ákæranda að uppskeran skuli ekki vera meiri en raun ber vitni í Baugsmálinu. "Það er ekki hægt annað en að líta á þetta sem stóráfall fyrir ákæruvaldið." Hann segir að útreið Baugsmálsins í dómskerfinu gefi tilefni til þess að fara yfir starfsaðferðir og vinnubrögð efnahagsbrotadeildar og athuga hvort þau séu í nægilega góðu lagi. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði ekki aðeins átján ákærum frá heldur öllu málinu sem kunnugt er. "Vera má að héraðsdómur sé að verja sig fyrir mögulegri ofanígjöf frá Hæstarétti minnugur þess að hann hefur rekið mál til baka og sagt að þau hafi ekki verið nógu vel undirbúin." Steingrímur telur að réttarríkið hefði virkað ef niðurstaðan hefði verið sú að ekki væri efni til ákæru eftir rannsókn málsins. "Það er allt annað og verra þegar ákærandi telur sig hafa efni til að ákæra í tugum liða og ákærur reynast svo ónýtar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×