Innlent

Parið situr inni fram að dómi

Gísli Þorkelsson
Gísli Þorkelsson

Réttað verður í Suður-Afríku 18. apríl á næsta ári í máli morðingja Gísla Þorkels­sonar, að sögn Andy Pieke, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Boksburg, úthverfi Jóhannesarborgar.

"Dagsetning fyrir réttarhöldin var ákveðin á þriðjudag þegar sakborningarnir voru færðir fyrir dómara," segir hann. Réttarhöldin fara fram í Johannesburg High Court, en það dómstig jafngildir héraðsdómi hér.

Sakborningarnir, Willie Theron sem er 28 ára gamall og Desiree Oberholzer sem er 43 ára, hafa játað brot sitt að hluta, en þau eru ákærð fyrir morð, þjófnað, svik og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Þau verða í haldi lögreglu fram að réttarhöldum og hafa að sökn Pieke ekki farið fram á lausn gegn tryggingu. "Og það gera þau heldur ekki úr þessu úr því þau nýttu sér ekki þann kost fyrir rétti í Boksburg," segir Pieke.

Gísli hafði búið í Suður-Afríku frá árinu 1994. Lík hans fannst 10. júlí síðastliðinn í bakgarði í Boksburg falið í tunnu fylltri af steinsteypu. Gísli hafði þá verið látinn í rúmar fimm vikur en krufning leiddi í ljós að hann hafði verið skotinn í höfuðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×