"Við vonumst til þess að fylla salinn af körlum," segir Árni Magnússon félagsmálaráðherra, sem boðar til karlaráðstefnu um jafnréttismál í Salnum í Kópavogi á morgun. Einungis karlar fá að taka til máls á ráðstefnunni, með einni undantekningu þó því Vigdís Finnbogadóttir ávarpar ráðstefnuna og situr hana sem heiðursgestur og verndari.
Upphaflega er þetta hugmynd Vigdísar sem hún setti fram á ráðstefnu í Borgarleikhúsinu fyrir ári, þar sem hún leit fram í salinn og spurði: Hvar eru karlarnir?
Árni tók Vigdísi á orðinu og þau hittust til að ræða þessa hugmynd, að halda sérstaka karlaráðstefnu um jafnréttismál. Árni hefur síðan unnið að undirbúningi ráðstefnunnar ásamt þeim Bjarna Ármannssyni, Gunnari Páli Pálssyni, Ingólfi V. Gíslasyni, Ólafi Stephensen og Runólfi Ágústssyni. Allir munu þeir flytja framsöguerindi á ráðstefnunni og einnig mun Þráinn Bertelsson flytja þar erindi.
Ennfremur stýrir Egill Helgason tvennum pallborðsumræðum. Á öðru pallborðinu sitja ungir karlmenn úr stjórnmálaflokkunum en á hinu pallborðinu reynsluboltar sem unnið hafa að ýmsum þáttum sem snúa að jafnréttismálum frá sjónarhóli karla.
Árni segir uppsetningu ráðstefnunnar sérstaklega miðast við að hún falli að óskum karla. "Þetta verða stutt og hnitmiðuð erindi, brotin upp með kaffihléi og pallborðsumræðum. Vonandi verður síðan snörp umræða og skörp. Ekki verður gert ráð fyrir því að konur sæki ráðstefnuna, að Vigdísi undanskilinni. Nokkuð margar konur hafa hins vegar sagt við mig að þær gætu alveg hugsað sér að vera fluga á vegg. En ég get huggað þær með því að ráðstefnan verður tekin upp og hún verður aðgengileg á netinu innan fárra daga."
Lífið