Fastir pennar

Vinstri absúrdismi

Þeir á Múrnum fögnuðu vel kjöri Georges Galloway á breska þingið. Þeim finnst kannski ekkert athugavert við að Galloway naut annað slagið gistivináttu Saddams Hussein löngu eftir að hann var orðinn útlægur úr samfélagi þjóðanna; þingmaðurinn og einræðisherrann urðu miklir kumpánar. Galloway hrósaði Saddam fyrir hugrekki, styrk og óbilandi þor. Honum þótti miður þegar hann var handtekinn. Hann hefur lýst uppreisnarmönnum í Írak sem "frelsisliðum." Látum svo vera margítrekaðar ásakanir um að Galloway hafi þegið mútur frá Saddam – nú síðast frá bandarískri þingnefnd. Á sama tíma kalla Múrverjar Tony Blair "glæpamann". Hér er ágætis bloggfærsla eftir Íraka sem lýsir vonbrigðum sínum með kosningu Galloways í Bethnal Green and Bow hverfinu í London, en þar búa 45 þúsund múslimar af asískum uppruna. Það var ekki tilviljun að Galloway valdi þetta hverfi. Bloggarinn, Ahmed, telur að þar risti ástin á lýðræðinu svo grunnt að jafnvel Saddam eða Osama bin Laden hefðu náð kjöri. Hann spyr hver sé skýringin á að múslimar sem búa í lýðræðisríki hatist svona mikið við lýðræðið? Þess má svo geta að Galloway felldi einn efnilegasta þingmann Verkamannaflokksins, svarta konu sem nefnist Oona King. Um það er meðal annars rætt í viðtali Jeremys Paxman við Galloway frá því á kosninganóttina. Það eru einkennilegir tímar þegar marxistar á Vesturlöndum telja sig eiga sameiginlegan málstað með íslömskum vígamönnum. Og mjög er óheppilegt að þetta skuli vera á sama tíma og lík eru að koma upp úr fjöldagröfum í Írak. Þetta er vinstri absúrdismi eins og hann verður verstur. --- --- --- Af hverju er Markús Örn að kvarta undan því að Jónínu Ben hafi verið boðið í viðtal í Kastljósinu? Hún er gott fjölmiðlaefni og hún hefur ýmislegt til síns máls. Hver eru skilaboðin frá Markúsi? Að ekki eigi að fjalla um svo umdeilt efni? Er útvarpsstjórinn ekki nægilega trausti rúinn eftir að hafa reynt að troða skósveini sínum upp á fréttastofuna þótt hann fari ekki að stunda ritskoðun í ofanálag? Finni Ingólfssyni og Ólafi í Samskip hefur líka verið boðið að svara málflutningi Jónínu – margsinnis. Þeir hafa ekki þegið það. Finnur er erfiðasti maður sem ég hef átt samskipti við á gervöllum fjölmiðlaferli mínum. Meðan hann var ráðherra var eiginlega aldrei hægt að ná í Finn, ef hann sagðist ætla að tala við mann gat maður verið viss um að alltaf kæmi eitthvað óvænt upp á. Hann var meistari í undanbrögðum – já, háll sem áll. Stjórnmál áttu annars illa við Finn af því þar eru gerðar lágmarkskröfur um að starfað sé fyrir opnum tjöldum. Það hentaði honum ekki. --- --- --- Líkt og Guðmundur Ólafsson benti á í síðasta þætti mínum: Það þarf ekki annað en að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja til að fatta hvað allt þetta dæmi var einkennilegt. Sjá blaðsíðu 72-74, maður verður samt að skilja að möppudýr hjá Ríkisendurskoðun nota ekki stór orð. En þeir eru heldur ekki að fara með gróusögur, dylgjur, slúður eða kjaftasögur, svo notuð séu vinsæl orð úr pólitískri umræðu síðustu vikna. Ætla má að S-hópurinn, Egla og samferðarmenn hafi hagnast um 7-10 milljarða á að eiga Búnaðarbankann í tvo og hálfan mánuð, sagði Guðmundur í þættinum. Það eru góð laun fyrir lítið framlag. Fjölmiðlarnir kikkuðu því miður í þessu máli, hvort sem það var vegna hæversku, leti eða sökum þess að þeir voru að gæta einhverra hagsmuna. Jónína átti stóran þátt í að koma þessu aftur á dagskrá – það er þjóðþrifaverk. --- --- --- Sandra Franks,kona sem starfaði fyrir Samfylkinguna, lak upplýsingum um símanúmer og netföng flokksmanna út um bæinn. Svo kærir hún til Persónuverndar að málið hafi verið rannsakað með því að kíkja í tölvupóstinn hennar. Væri ekki nær að fólkið sem hún bar út með þessum hætti kærði Söndru fyrir athæfið? --- --- --- Nú er Frjálslyndi flokkurinn byrjaður að leysast upp. Hann fer gamalkunna leið smáflokkanna. Gunnar Örlygsson er kominn í Sjálfstæðisflokkinn; á mynd í Mogganum í morgun var hann rjóður í kinnum að taka í höndina á Davíð Oddssyni. Á svipaðan hátt fóru Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson í Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma – þeir áttu reyndar millileik í svokölluðum Þingflokki frjálslyndra. Á endanum kunnu Sjálfstæðismenn þeim enga sérstaka þökk fyrir. Þeir fengu engin örugg sæti; duttu út af þingi í næstu kosningum. Þannig logaðist Borgaraflokkurinn út af. Sama mynstrið mátti sjá þegar Bandalag jafnaðarmanna leysist upp; hluti þess fór inn Alþýðuflokk, hinn hlutinn í Sjálfstæðisflokkinn. Enginn þaðan átti áframhaldandi líf í pólitík. --- --- --- Frjálslyndir eru og verða einsmálsflokkur. Andstaðan við kvótakerfið er hið eina sem flokksmenn hafa verið sammála um. Þegar því sleppir tvístrast þeir í allar áttir. Ef ekki verður hrun í fiskveiðum af einhverjum ástæðum er nokkuð víst að kosningarnar 2003 séu þær síðustu þar sem er tekist á um sjávarútveg – það var eiginlega með ólíkindum að Frjálslyndum skyldi lánast að koma málinu á dagskrá síðast. Kvótakerfið er orðið fast í sessi; í meginatriðum verður því ekki breytt úr þessu. Það er líka erfitt að andmæla því að Íslendingum hafi tekist betur upp í fiskveiðistjórnun en flestum öðrum þjóðum. Að öðru leyti hafa Frjálslyndir enga stefnu sem bindur flokkinn saman. Formaðurinn dúkkar upp með tillögur um nítján jarðgöng – reynir þannig að yfirtompa Framsókn í byggðamálunum. Í borgarstjórn hefur verið gert hagsmunabandalag við Ólaf F. Magnússon; þar ráða ferðinni mjög þröngsýnar hugmyndir um húsvernd og áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri. --- --- --- Er að horfa á Mastermind á BBC með öðru auganu. Hér maður sem veit allt um einhyrninga – bókmenntalegar tilvísanir, málverk af þeim og að einhyrningshorn voru í raun náhvalstennur. Svo kemur annar sem veit allt um Wittgenstein. Í einni spurningunni er rifjað upp þegar Wittgenstein kom til Cambridge 1929. Þá á John Maynard Keynes að hafa sagt: "Well, God has arrived. I met him on the 5:15 train." Hversu hátt er Wittgenstein skrifaður í heimspekinni núorðið? Spyr sá sem ekki veit. --- --- --- Það er ekkert Silfur núna um helgina. Leyfi mér að sleppa þrasinu á hvítasunnu.





×