Innlent

Fiskvinnslustöðvar í vanda

Styrk staða krónunnar kemur illa við rekstur fiskvinnslustöðva. Hraðfrystihúsið Gunnvör er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum og segir framkvæmdastjórinn að grípa þurfi til aðgerða, hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum nægi ekki. Hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru á Ísafirði starfa um 75 manns í landvinnslu fyrirtækisins. Fyrirtækið gerir út fjóra togara og er kvóti þess um tólf þúsund þorskígildistonn. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að rekstur landvinnslunnar beri þess merki að krónan sé ofursterk. Það bitni fyrst og fremst á landvinnslunni því laun sjómanna á frystitogurum og þeirra sem flytja út fisk í gámum ákvarðist af söluandvirðinu og fylgi því erlendu myntinni. Einar Valur segir að gengisstefnan sé aðför að landsbyggðinni. Aðspurður hvað sé til ráða segist hann ekki vita það. Þeir sem starfi í sjávarútvegi búi við það að greiða einir starfstétta auðlindaskatt sem þekkist hvergi á byggðu bóli. Annars staðar sé sjávarútvegur styrktur af ríkinu. Stjórnvöld hér á landi segi að sjávarútvegurinn verði að búa við þetta og því verði þeir sem starfa þar að grípa til einhverra aðgerða sem við eiga. Einar Valur segir mjög erfitt þegar framleiðsluvörurnar lækki sífellt og innlendur kostnaður hækki á móti. Því sé ljóst að menn verði að grípa til aðgerða og hagræða með einhverjum hætt. Hann vill sjá aðgerðir af hálfu þingmanna og sveitarstjórnarmanna í þessum málum. Hann sakni þess að heyra ekki í þeim en þeir virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessum málum. Ef hann væri bóndi og nytin hryndi í kúnum hjá honum hefði hann verulegar áhyggjur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×