Sport

Hvað gerir Rita gegn Keflavík?

Lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta hefjast í kvöld þegar deildarmeistarar Keflavíkur taka á móti Grindavík á Sunnubrautinni í Keflavík. Keflavík hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn tvö síðustu ár og er liðið taplaust í lokaúrslitunum bæði árin. Grindavík hefur heldur ekki tapað leik í lokaúrslitnum því liðið vann alla þrjá úrslitaleikina um titilinn gegn KR árið 1997 eina skiptið sem félagið hefur komist svo langt í úrslitakeppninni áður. Grindavíkurliðið teflir nú fram WNBA-stjörnunni Ritu Williams og hefur hún komið með nýtt blóð í liðið, sem hefur unnið alla þrjá leiki sína með hana innanborðs. Þessi snjalli bakvörður hefur sýnt mikla leiðtogahæfileika auk þess að bjóða upp á mikla skotsýningu í síðustu tveimur leikjum. Keflavík vann fjóra af fimm leikjum liðanna í vetur og hefur aðeins tapað einum af 14 heimaleikjum sínum í vetur en þurfti hins vegar þrjá leiki til þess að slá ÍS út úr undanúrslitunum á sama tíma og Grindavík vann báða leiki sína gegn Haukum. Rita Williams skoraði 34 stig að meðaltali og hitti úr 13 af 20 (65%) þriggja stiga skotum sínum í einvíginu gegn Haukum og hefur fengið rúma viku til viðbótar til að komast í betra form. Bæði lið hafa góða erlenda leikmenn og marga reynda leikmenn og því má búast við skemmtilegu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn í ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×