Sport

Aftur á byrjunarreit, sagði Viggó

Þau voru þung sporin hjá landsliðsþjálfaranum Viggó Sigurðssyni eftir leikinn enda ljóst að hann nær ekki því markmiði í Túnis að lenda í einu af sex efstu sætunum. "Mér fannst þessi leikur tapast í huga leikmanna í síðari hálfleik. Mér fannst liðið ekki trúa því að það væri með þessa fínu stöðu í hálfleik eftir mjög slaka byrjun. Við förum illa með dauðafæri og lykilskyttur bregðast. Við sköpum fín færi sem við misnotum gegn miðlungsmarkverði sem ver eins og heimsmeistari og það er okkur að þakka en ekki honum," sagði Viggó sem kann fáar skýringar á slökum byrjunum í síðari hálfleik. "Við erum að gera ótrúlega einföld byrjendamistök í vörninni og erum hreinlega á byrjunnarreit aftur. Það er langt frá því að okkar markmið náist hér í Túnis. Ég er mjög ósáttur við spilamennskuna hjá liðinu," sagði Viggó en hver er ástæðan fyrir þessu gengi? "Það er erfitt að meta það núna. Ég þarf að skoða leikina betur en það er ljóst að það vantar allan stöðugleika í liðið. Við megum svo ekki við því að vera án Óla annan leikinn í röð. Það er alveg ljóst. Svo er vörnin bara ekki nógu góð og það vantar klárlega varnarmola í vörnina," sagði Viggó og bætti við að gott hefði verið að hafa Sigfús Sigurðsson með í þessu móti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×