Erlent

Seinkun á Airbus flugi

Það verður seinkun á fyrsta flugi risaþotunnar A-380, sem á að taka allt að átta hundruð farþega. Ef farið verður eftir óvenjulegum öryggiskröfum bandarískra stjórnvalda verður seinkunin örugglega enn þá meiri. Til stóð að fyrstu farþegarnir fengju að kynnast þessari vél þegar á næsta ári, en þá ætlaði flugfélagið Singapore Airlines að taka nokkrar svona vélar í gagnið. Það verður seinkun á því þar sem smíðin gengur illa. Hlutar vélarinnar eru smíðaðir á nokkrum stöðum í Evrópu og svo er þeim púslað saman í Hamborg. Meðal vandamálanna er að koma hlutunum þangað, því að stór vél er saman sett úr stórum hlutum og það er meira en að segja það að flytja þá landa á milli. Kaupendur vélarinnar eru alls ekki hressir en ef Bandaríkjaþing fær vilja sínum framgengt, er hætt við meiri truflunum. Þar liggur fyrir frumvarp sem herðir öryggiskröfur fyrir farþegavélar sem geta borið átta hundruð farþega. Slíkar vélar verða að vera búnar flugskeytavara. Eina vélin sem þetta á við er auðvitað A-380 þar sem aðrar vélar taka töluvert færri farþega. Þetta þykir mörgum heldur dularfull regla og efast um að öryggishagsmunir séu ástæða hennar. Airbus og Boeing flugvélaframleiðandinn hafa löngum eldað grátt silfur saman og sakað hitt fyrirtækið um að þrífast eingöngu á niðurgreiðslum. Fréttaskýrendur segja margt benda til þess að kröfur um flugskeytavara séu í raun ekkert annað viðskiptahömlur Bandaríkjamanna, ætlaðar til að gera flugvélar Boeing að fýsilegri kosti í samanburði við risaþotuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×