Innlent

Leikskólaloforð sýni örvæntingu

Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallar loforð borgarstjóra um að öllum leikskólabörnum verði boðið upp á sjö stunda gjaldfrjálsa leikskólavist örvæntningafullt útspil. Guðlaugur Þór segir þetta loforð bera keim af valdabaráttu sem felist í því að styrkja stöðu Steinunnar Valdísar innan R-listans. Þetta sé loforð inn í framtíðina en samkvæmt því munu ráðstöfunartekjur foreldra með eitt barn aukast um 215 þúsund krónur á ári. Guðlaugur segir útspil borgarstjóra örvæntingarfullt og bendir á að það hafi hvergi verið kynnt í borgarkerfinu. Menntaráð sem fjalla eigi um málið komi ekki saman fyrr en eftir páska og augljóst sé að aðrir fulltrúar í R-listanum hafi ekki hugmynd um það. Þetta beri því annars vegar keim af örvæntingu og hins vegar valdabaráttu innan R-listans. Guðlaugur segir enn fremur að það sé á allra vitorði að fjölmargir, fjöldi sem samsvari rúmlega íbúafjölda Mosfellsbæjar, hafi flutt úr Reykjavík í nágrannasveitarfélögin á undanförnum árum vegna húsnæðiskostnaðar, gjaldskrárhækkana og skattahækkana. Borgarstjóri sé því að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að lofa fram í framtíðina. Aðspurður hvort ekki felist kjarabót í loforði borgarstjóra segir Guðlaugur að sjálfstæðismenn fagni því ef álögur á barnafjölskyldur verði loksins minnkaðar. Það hafi verið áherslumál sjálfstæðismanna og þegar þeir hafi verið við völd hafi ekki bara verið talað um það heldur líka framkvæmt. Hann veki athygli á því að verið sé að lofa fram í tímann þegar R-listinn verði ekki lengur við völd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×