Sport

Dreymdi mig símtalið við Viggó?

NordicPhotos/GettyImages
Þegar Viggó Sigurðsson tilkynnti landsliðshóp sinn fyrir vináttulandsleikina gegn Pólverjum um páskana brá einum handboltamanni mikið. Sá er seinheppinn með eindæmum og heitir Vilhjálmur Ingi Halldórsson, leikmaður Vals. Hann hafði talað við Viggó í upphafi vikunnar þar sem landsliðsþjálfarinn tjáði honum að hann væri í landsliðinu. Þegar Vilhjálmur las fréttir af fundinum brá honum verulega í brún því allir fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði misst sæti sitt í liðinu. Skal svo sem engan undra því nafn hans var ekki á lista yfir leikmenn og því gátu fréttamenn ekki vitað betur. "Mér krossbrá þegar ég las í blöðunum að ég væri ekki í landsliðinu og hugsaði bara hvað er að gerast? Ég vissi ekki alveg hvort mig hefði verið að dreyma símtalið við Viggó eða ekki en svo mundi ég að það var hringt úr númerinu hans þannig að það gat ekki annað verið en þetta hefði verið hann," sagði Vilhjálmur en HSÍ leiðrétti þessi leiðu mistök ekki fyrr en rúmum sólarhring eftir blaðamannafundinn. Vilhjálmur reyndi strax á miðvikudagskvöldið að ná í Viggó til þess að fá svör við því hvað væri í gangi. Það gekk frekar illa og náði Vilhjálmur ekki í Viggó fyrr en á fimmtudagsmorgun. "Þetta var ekkert sérstaklega auðvelt símtal en ég spurði bara hvað ég hefði eiginlega gerst en þá sagði Viggó mér að það hefðu bara orðið mistök. Mér var mikið létt við þær fréttir," sagði Vilhjálmur, sem verður vonandi skráður á skýrslu í einhverjum leikjum gegn Pólverjum um páskana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×