Íslenski boltinn

Hin þaul­reynda Anna Björk heim í KR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anna Björk leikur í svörtu og hvítu í sumar.
Anna Björk leikur í svörtu og hvítu í sumar. Mattia Pistoia/Getty Images

Miðvörðurinn Anna Björk Kristjánsdóttir tekur slaginn með uppeldisfélagi sínu KR í Lengjudeild kvenna í fótbolta í sumar. Hún á að baki 45 A-landsleiki, mörg ár í atvinnumennsku og 163 leiki í efstu deild.

Hin 35 ára gamla Anna Björk er uppalin vestur í bæ og lék sinn fyrsta leik í efstu deild árið 2004. Hún færði sig til Stjörnunnar fyrir tímabilið 2009. Varð Anna Björk Íslandsmeistari með liðinu árin 2011, 2013 og 2014.

Eftir góð ár í Garðabænum hélt miðvörðurinn til Svíþjóðar þar sem hún lék með Örebro og Limhamn Bunkeflo. Þaðan lá leiðin til PSV í Hollandi áður en hún samdi við Selfoss fyrir tímabilið 2020 í efstu deild kvenna. Þau vistaskipti vöktu mikla athygli.

Hún var þó ekki lengi á Suðurlandi og samdi við Le Havre í Frakklandi sama ár. Þaðan lá leiðin til Inter í Mílanó á Ítalíu og svo til Vals árið 2023. Þar varð hún Íslandsmeistari um haustið og stefndi í enn einn titilinn á síðasta ári en Anna Björk þurfti að hætta leik um mitt sumar þar sem hún var ólétt.

Þessi reyndi miðvörður tekur nú slaginn með nýliðum KR í Lengjudeild kvenna. Liðið endaði í 2. sæti 2. deildar í fyrra og ætlar sér stóra hluti í sumar. Fyrr í dag greindi Fótbolti.net frá því að KR hefði fengið Karen Guðmundsdóttur og Valgerði Grímu Sigurjónsdóttur frá Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×