Erlent

Krefjast afsagnar Fischers

Hart er sótt að Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, að segja af sér í kjölfar þess að upp komst um afdrifaríkt klúður í utanríkisráðuneytinu.  „Hafi einhver gert einhver mistöki einhversstaðar í utanríkisráðuneytinu ber ég ábyrgð á því.“ Þetta er svar Fischers við gagnrýni á það sem virðist vera klúður í þýska utanríkisráðuneytinu. Málið snýst um vegabréfsáritanir sem veittar voru í Kænugarði á árunum 1999 til 2003. Meira en milljón Úkraínubúa fékk vegabréfsáritun til Þýskalands að því er virðist án þess að almennilega væri gengið úr skugga um eðli ferðalagsins og tilgang. Þeir sem notfærðu sér þessar vegabréfsáritanir og græddu mest á þeim voru smyglarar sem stunduðu mansal. Margir þeirra sem fengu vegabréfsáritanirnar enduðu sem ólöglegt vinnuafl í Þýskalandi, stór hluti í rauðum hverfum stórborga í vændi. Svo virðist sem óheppilegar reglur og spilltir starfsmenn sendiráða hafi sameinast um að gera mansal mögulegt. Þær raddir heyrast í þýskum fjölmiðlum að Fischer eigi að segja af sér og skiptir þá engu hvort að ritstjórnarstefna miðlanna telst fremur til hægri eða vinstri. Það er jafnvel gengið svo langt að velta fyrir sér framtíð Græningja án hans en Fischer er helsta og nánast eina raunverulega pólitíska stjarna flokksins og sá maður innan hans sem venjulegir Þjóðverjar bera helst traust til. En í þýskum fjölmiðlum velta því sumir fyrir sér hvort að andúð blaðamanna á Fischer spili þarna inn í, hvort að það geti verið að blaðamenn leiti raunverulega hálfgerðra hefnda. Þó að Fischer njóti almennra vinsælda og komi vel fyrir er hann einnig þekktur fyrir dónaskap og hroka í samskiptum við blaðamenn, sem kann að koma honum í koll.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×