Lífið

Líður best með mörg járn í eldinum

Jódís Hlöðversdóttir textílhönnuður þrykkir mynstur á gegnsætt efni og setur í glugga líkt og steint gler. Jódís Hlöðversdóttir er textílhönnuður að mennt og kennir leikskólabörnum myndlist. Hún hefur skapað skemmtilegt myndverk í glugga þar sem hún leikur sér með gegnsæi og birtu. "Efnið sem ég nota er allt gegnsætt og þegar það er uppsett í glugga er það líkt og steint gler," segir Jódís og krefst myndverkið þess að birtu sé hleypt í gegnum það. "Ég nota sérstaka aðferð við þrykkvinnuna sem gerir það að verkum að engir tveir reitir eru eins," segi Jódís, sem sjálf hefur sett myndverkið upp heima hjá sér með ljósaseríu aftan við. "Mynstrið vann ég upp úr skissuvinnu sem ég gerði á Syðri-Rauðamel í Hnappadal, en þar er stór rauðamelskúla sem ég skissaði, og mynstrið er boginn af kúlunni," segir Jódís. Við gerð myndverksins notar hún fyrsta þrykkrammann sem hún gerði í námi og hefur hann verið rauði þráðurinn í gegnum hennar textílhönnun. Jódís stefnir á frekari úrvinnslu á hugmyndinni. Hún hefur verið að prófa sig áfram með lampa og fyrir jólin þrykkti hún jólakort með mynstrinu. "Mér líður best þegar ég hef mörg járn í eldinum og hef líka málað í olíu jafnhliða textílhönnuninni," segir Jódís.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.