Innlent

FL Group keypti á 15 milljarða

FL-Group hefur keypt lággjaldaflugfélagið Sterling fyrir fimmtán milljarða króna. Forstjóri fyrirtækisins telur samt að SAS vilji ekki slíta samstarfi. Gengið var frá samningum í dag og greint frá uppstokkun félagsins. Kaupin eiga sér nokkurn aðdraganda og fjallað hefur verið um þau í fjölmiðlum undanfarið. Kaupverðið er háð því að ákveðinn árangur náist í rekstri Sterling og verði hann undir væntingum gæti kaupverðið lækkað um allt að fimm milljarða króna. Það gæti að sama skapi hækkað verði árangurinn mjög góður. Breytingarnar sem um ræðir eru að skipta félaginu enn frekar upp. Flug- og ferðaþjónusta er klofin í Icelandair Group, Bláfugl, sem verður á alþjóðlegum fraktmarkaði, og FL Travel Group, sem nær í grófum dráttum yfir ferðaþjónustu hér á landi. Fjárfestingaþátturinn er aðskilinn. Þessu til viðbótar á að auka hlutafé FL-Group um fjörutíu og fjóra milljarða að markaðsvirði og verður félagið að því loknu meðal stærstu fyrirtækja á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Stjórnendur FL-Group vilja að hægt verði að greiða fyrir hlutafé í útboðinu með hlutafé í einhverjum að tíu stærstu fyrirtækjunum á hlutabréfamarkaðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×