Sport

Hörður á leið til hollenska félagsins Waallwijk

Hörður Sveinsson vonast til þess að komast í atvinnumennskuna í janúar, en er þó tilbúinn til þess að leika áfram á Íslandi.
Hörður Sveinsson vonast til þess að komast í atvinnumennskuna í janúar, en er þó tilbúinn til þess að leika áfram á Íslandi.

Hörður Sveinsson, framherji Keflavíkur, mun að öllum líkindum fara til æfinga hjá hollenska félaginu RKC Waalwijk á næstunni, en hollenska félagið hefur fylgst vel með honum undanfarna mánuði. Guðlaugur Tómasson, umboðsmaður Harðar, segir danska félagið FC Midtjylland einnig hafa sýnt honum áhuga en Hörður æfði með liði félagsins fyrir skömmu.

"Midtjylland ætlar að skoða sín mál eftir að hausttímabilinu lýkur, það er 9. desember. Waalwijk hefur hins vegar fylgst með Herði í svolítinn tíma og vill skoða hann nánar, áður en forráðamenn félagsins ákveða hvað gera skal. Annars er nú ekki líklegt að hreyfing komist á leikmannamálin fyrr en í janúar, þegar félagsskiptaglugginn opnar að nýju. En það er ljóst að mörg atvinnumannafélög vilja fá Hörð í sínar raðir."

Hörður Sveinsson vonast til þess að komast í atvinnumennsku í janúar en er þó alveg tilbúinn til þess að leika hér á landi áfram. "Ég tók mér tveggja vikna frí eftir að ég kom frá Danmörku. Ég er að koma mér af stað aftur þessa dagana. Ég stefni á að fara í atvinnumennsku á réttum tímapunkti en geri mér þó alveg grein fyrir því að það er ekki víst að það gangi eftir í janúar. En ég er alveg tilbúinn til þess að vera áfram hér á Íslandi. Fótboltinn hér á Íslandi er alltaf að verða betri að mínu mati."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×