Erlent

Hersveitir fljótlega frá Írak?

Það verður ekki þörf á öllum þeim hersveitum sem eru í Írak miklu lengur að mati Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Rice segir Íraka taka við sífellt fleiri verkefnum á hverjum degi og að geta þeirra til að sjá um eigin mál aukist á hverjum degi. Hvorki sú geta né bandaríska herliðið dugði þó til að bjarga lífi leiðtoga súnnítaflokks og sona hans. Allt að fjörutíu byssumenn sem voru dulbúnir sem írakskir hermenn ruddust inn á heimili mannsins í útjöðrum Bagdad-borgar fyrir dögun og skutu hann, þrjá syni hans og tengdason til bana. Einn þeirra hélt á dóttur sinni. Varnarmálaráðherra Íraks harðneitar því að hermenn hafi gert árásina sem er talin enn eitt merki harðnandi átaka milli trúarhópa í landinu, en sumir leiðtogar súnníta saka ráðamenn úr röðum sjíta um að hafa heimilað dauðasveitum á vegum skæruliða að ráðast á súnníta.

Annars staðar í Bagdad var háttsettur lögreglumaður ráðinn af dögum. Hópur byssumanna réðst á höfuðstöðvar Kommúnistaflokksins í Sadr-borg, einu af hverfum Bagdad-borgar og drápu þar tvo. Alls hafa hundrað og sextíu fallið í sjálfsmorðsárásum frá því í síðustu viku, en árásirnar beinast einkum að sjítum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×