Sport

Sigurður kennir varnarleikinn

"Við erum að sýna liðunum hvernig á að spila vörn! Þetta hefur ekki sést í mörg ár," sagði Sigurður Sveinsson þjálfari Fylkis eftir að lærisveinar hans sigruðu FH-inga 27-22 í Árbænum í gær. Gestirnir komust aldrei yfir í leiknum en voru skammt undan í fyrri hálfleik. Í þeim síðari hafði Fylkir síðan yfirhöndina algjörlega. Heimir Örn Árnason var markahæstur með átta mörk en öll nema eitt skoraði hann í fyrri hálfleiknum. "Við ætlum ekki að gefa neitt eftir á heimavelli. Við náðum góðri vörn og fækkuðum tæknivitleysunum og þar með fengum við fleiri hraðaupphlaupum en venjulega, það er stígandi í sókninni hjá okkur," sagði Sigurður. Atli Hilmarsson þjálfari FH var ekki jafn hress. "Við vorum að spila mjög illa og sóknarleikurinn heldur áfram að vera vandamál hjá okkur, hann þurfum við að skerpa, þá var markvarslan óvenju slök. Fylkir hefur skemmtilegt lið sem berst vel og átti skilið að sigra," sagði Atli Hilmarsson en FH-liðið hefur tapað þremur fyrstu leikjunum undir hans stjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×