Erlent

Al-Zarqawi helsærður eður ei?

Er leiðtogi al-Qaida í Írak helsærður eður ei? Innanríkisráðherra Íraks heldur því fram og á íslamskri vefsíðu er því þverneitað að annar maður fylli nú í skarðið. Al-Qaida hryðjuverkasamtökin í Írak harðneita því að bráðabirgðaleiðtogi hafi verið valinn til að leiða hópinn á meðan Abu Musab al-Zarqawi nær heilsu. Hann var í gær sagður hafa særst í árás en það hefur ekki fengist staðfest. Á íslamskri vefsíðu var beðið um fyrirbænir fyrir al-Zarqawi þar sem hann hefði særst þar sem hann hefði verið á guðs vegum. Í yfirlýsingu frá hópnum sem birt var á íslamskri vefsíðu í morgun er því neitað að nokkur fylli í skarðið fyrir al-Zaeqawi, en ekkert sagt um það hvort að hann er í raun særður eður ei. Innanríkisráðherra Íraks, Bayan Jabor, hélt því hins vegar fram í morgun að vitað væri að al-Zarqawi hefði særst en vildi ekki greina frá því hvernig honum hefðu borist þær fregnir til eyra. Al-Zarqawi er efstur á lista Bandaríkjamanna um eftirlýsta menn í Írak og eru tuttugu og fimm milljónir dollara lagðar honum til höfuðs - en það er sama upphæð og er í boði fyrir Osama bin Laden.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×