Stjórnarandstæðingar fögnuðu frumvarpi félagsmálaráðherra um starfsmannaleigur á Alþingi, sem mælt var fyrir í dag, en töldu ekki nægilega langt gengið. Formaður vinstri - grænna sagðist ennfremur ekki sannfærður um að íslenska þjóðin þyrfti yfirhöfuð að sætta sig við slíkt fyrirbæri á íslenskum vinnumarkaði.
Árni Magnússon mælti fyrir frumvarpi um starfsmannaleigur á alþingi í dag. Samtök atvinnulífsins og ASÍ greinir á um ábyrgð þeirra sem kaupa slíka þjónustu af starfsmannaleigunum en ekki er kveðið á um slíka ábyrgð í frumvarpinu.
Össur Skarphéðinsson sagði að erlent verkafólk væri að starfa á íslenskum vinnumarkaði fyrir skítalaun og við illan aðbúnað vegna þess að ekki hafi verið tekið fyrr á málunum. Það sem vanti í lögin núna sé fyrst og fremst tvennt.
Siv Friðleifsdóttir formaður félagsmálanefndar sagði að mjög erfitt gæti reynst að breyta frumvarpi sem samkomulag hefði náðst um á vinnumarkaði. En Össur sakaði hana að bragði um að vilja framselja vald alþingis.