Innlent

3 milljóna bótakröfu vísað frá

Skaðabótakröfu konu sem rann í hálku á göngustíg við Fannborg í Kópavogi veturinn 1999 var í dag hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur. Konan var á leið frá Heilsugæslustöðinni sem er í Fannborg 7-9. Hún ökklabrotnaði við fallið og hlaut við það 20% varanlega örorku. Í framhaldinu stefndi hún húsfélögum í fjölbýlishúsinu þar sem heilsugæslustöðin er til húsa, og að auki bæði ríkinu og Kópavogsbæ á þeim forsendum að opinberar stofnanir væru reknar í húsnæðinu. Konan krafðist bóta á þeirri forsendu að tjónið væri afleiðing af vítaverðum skorti á viðhaldi fasteignar. Héraðsdómur benti hins vegar á það í niðurstöðu sinni að konan hefði margoft farið þessa leið og gjörþekkti því aðstæður. Þótt lekið hafi frá vatnsrennu og hálka myndast vegna þess megi alltaf búast við slíku utandyra í desember. Er það því mat dómsins að þetta hafi verið óhappatilvik og skaðabótakröfunni, sem hljómaði upp á tæpar þrjár milljónir króna auk vaxta, var því hafnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×