Skemmdarverk unnin á níu bílum

Unnin voru skemmdarverk á níu bifreiðum í Keflavík í nótt. Brotnir voru speglar á þremur þeirra, hægra afturljós var brotið á tveimur, hliðarrúða brotin í einum bíl, framrúða í einum og afturrúður voru brotnar í tveimur bílum. Bílarnir stóðu allir við Hátún og Sóltún í Keflavík. Svo virðist sem sömu aðilar hafi verið að verki en skemmdarvargarnir virðast hafa notað einhvers konar áhald til skemmdarverkanna. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Keflavík heyrði íbúi í hverfinu hávaða um tvöleytið í nótt. Víkurfréttir greina frá þessu. Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið er bent á að hafa samband við lögregluna í Keflavík.