Innlent

Samningum við SA sagt upp?

MYND/E.Ól
Alþýðusambandið telur sig hafa forsendur fyrir því að segja upp samningum við Samtök atvinnulífsins í haust, ef verðbólga lækkar ekki frá því sem nú er. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, en bendir á að fyrst verði samningarnir endurskoðaðir í haust og á grundvelli þeirrar vinnu verði svo tekin ákvörðun um uppsögn samninga eða ekki. ASÍ hefur gert samantekt á hækkunum á gjaldskrám opinberrar þjónustu hjá ríki og sveitarfélögum og segir að áhrifin af þeim séu þau að verðbólga verði áfram mun hærri en gengið var út frá við gerð kjarasamninganna. Þar hafi verið miðað við að hún yrði 2,5% í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þegar í maí á síðasta ári hafi hún hins vegar farið yfir 3% og engar horfur séu á að hún lækki á ný. Ef gripið er niður í hækkanir ríkisins sem tóku gildi um áramót má nefna hækkun á komugjöldum á heilsugæslustöðvar, gjöld vegna vitjana lækna, vegna heimsókna á slysadeildir, vegna endurkomu á göngudeildir og vegna sjúkraflutninga. Þá hækka gjöld fyrir ýmis konar þjónustu, eins og til dæmis dómsmálagjöld, þinglýsingargjöld og gjöld fyrir útgáfu margvíslegra leyfa, áritana, vottorða og skírteina. Til viðbótar þessum hækkunum hefur verið ákveðið að húseigendur skuli áfram greiða sérstakt umsýslugjald í ár og á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×