Fastir pennar

Álver bóndi enn á ferð

Það mun hafa verið í kringum 1977 sem Spilverk þjóðanna gaf út plötuna Sturlu. Á þeirri plötu náði hljómsveitin að festa fingur á nýlegum en dulmögnuðum og áhrifamiklum menningarþætti íslensku þjóðarsálarinnar. Menningarþætti sem virtist hafa tekið sér bólfestu í sjálfsmyndinni með handritunum, huldufólkinu, dvergunum og passíusálmunum. Þetta var áltrúin. Ekki álfatrúin, heldur áltrúin. Trúin á að álbræðsla væri allsherjarlausn við hverjum þeim atvinnuvanda sem að kynni að steðja. Spilverkið færði þetta í þjóðþekktan og þjóðlegan búning í laginu "Söngur dýranna í Straumsvík", en fyrstu tvö erindin voru svona: Í stórum stórum steini er skrítinn álfabær þar býr hann álver bóndi og alvör álfamær álfabörn með álfatær huldukýr - hulduær. Ísland elskar álver og alvör elskar það þau kyrja fyrir landann gleyma stund og stað "ó guð vors lands". við útlent lag. Tæpum þremur áratugum eftir að þetta var sungið inn á plötu, og nokkrum álverum og álversstækkunum síðar, stöndum við enn á skrafi við álver bónda. Landshlutar takast á um að fá frá honum búsílag. Að þessu sinni eru það Suðurnesjamenn og Norðlendingar, sem kallast á um hvar álver eigi næst að rísa. Báðir hafa í höndum tilboð og pappíra frá álbændum í útlöndum, en sú breyting hefur orðið á álversumhverfi heimsins að Ísland og íslenski mengunarkvótinn er nú orðinn eftirsóttur staður fyrir slíka starfsemi og takmarka verður hversu margir komast að í einu. Þannig er það ekki lengur sjálfgefið jafnvel þótt Century Aluminum vilji reisa álver í Helguvík og Alcoa vilji byggja álver á Norðurlandi, að þau fái til þess tækifæri – að minnsta kosti ekki bæði í einu. Stóriðjuuppbyggingunni þarf einfaldlega að stýra, þó ekki væri nema vegna virkjanaframkvæmda og til að hafa einhvern hemil á þenslu. Byggðasjónarmið og ýmsir samfélagslegir innviðir skipta þar auðvitað líka máli. Þess vegna er sú risavaxna samfélagslega tilraun sem verið er að gera í tengslum við Kárahnjúka og álbræðslu á Austurlandi gríðarlega mikilvægur leiðarvísir fyrir framtíðina. Báðir þeir staðir sem nú eru að bítast um að verða næstir í álversröðinni, Norðurland og Suðurnes, standa frammi fyrir mikilli byggðalegri og atvinnulegri röskun. Á Suðurnesjum má búast við að varnarliðið sé að mestu á förum og því fylgja víðtæk atvinnuvandamál. Víða á Norðurlandi – þó ekki á Akureyri - á byggð í vök að verjast og skemmst er að minnast lokunar kískilgúrverksmiðjunnar við Mývatn. Það er því að mörgu leyti skiljanlegt að menn bregðist hart við þegar þeir skynja sig í samkeppni um vænlegan framtíðarvinnuveitanda í héraði – ekki síst þegar um er að ræða álver bónda sem þjóðtrúin hefur útnefnt bjargvætt með sínar huldukýr og hulduær þegar mikið liggur við. Algerlega ótímabært er að taka af skarið um það hvort annar hvor þessara staða eða báðir eigi að njóta forgangs til orku og uppbyggingar stóriðju. Það er raunar ekki tímabært að segja neitt til um það hvort stóriðja eigi yfirleitt að rísa á þessum stöðum. Hitt er aftur mikilvægt að forustumenn á þessum svæðum horfi vítt um völl og einbeiti sér ekki um of að þessum eina valkosti. Þótt "Ísland elski álver og alvör elski það", þá má ekki alveg gleyma öðrum valkostum. Nálægðin við Keflavíkurflugvöll getur vissulega valdið vandræðum fyrir Suðurnesjamenn þegar herinn fer, en hún getur líka verið sóknarfæri t.d. í útflutningi á ferskum fiski. Byggðin við Eyjafjörð stendur til þess að gera sterkt og ólíklegt verður að teljast að nokkur sátt yrði um álver á Dysnesi, sem er rétt utan Akureyrar. Hneykslaður Akureyringur sem sá fyrir sér tvær risavaxnar háspennulínur í gegnum bæjarstæði Akureyrar talaði um hreyfingu þeirra manna sem vildu álver á Dysnesi sem "Hollvinasamtök um háspennulínur". Slíkt er lýsandi fyrir þá óeiningu, sem ríkir í höfuðstað Norðurlands um svona fyrirtæki. Yfirlýsing Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra í vikunni um að stilla upp Húsavík sem fyrsta kosti fyrir álver fyrir norðan er því skynsamleg og í takt við niðurstöður viðhorfskannana. Eyfirðingar eru í miklum efa um álver, en vildu gjarnan sjá það við Húsavík. Hins vegar er ekkert sem segir að jafnvel þótt sátt verði um Húsavík og að álver bóndi kjósi að setja þar niður býli, sé álver það sem endilega er best fyrir Húsavík eða Norðlendinga. Það sama á við um Suðurnesjamenn. Það er ekki sjálfgefið að álver í Helguvík sé besti kostur allra hugsanlegra kosta. Hættan er hins vegar sú, að þegar kominn er af stað metingur og keppni af því tagi sem nú er að fara af stað, þá öðlist metingurinn eigið líf og sjálfstæða tilvist og allt annað falli í skuggann. Líka hugsunin um að vaka yfir öðrum kostum. Þau álver bóndi og alvör álfamær virðast nefnilega ótrúlega seiðmögnuð þegar þau byrja að kyrja fyrir landann. Þá gleyma jafnvel skynsömustu menn bæði stund og stað og láta berast djúpt inn í álheima – þar sem bræðslan ríkir ein.





×