Innlent

Óskaplegt að sjá fólk svelta

Laufey H. Helgadóttir, 82 ára Þingeyingur sem búsett er í Borgarnesi, gaf nýlega eina milljón til hjálparstarfs Rauða krossins í Níger. Í Níger ríkir nú hungursneyð og óttast er um afdrif milljóna ef svo fer sem horfir. Laufey segir það góðverk að gefa fé í svona hjálparstarf. "Ég er búin að lesa og sjá svo mikið af myndum af mörgum börnum sem fá ekki að borða. Það er óskaplegt að sjá heilu þjóðirnar svelta, sérstaklega ef maður hugsar um allan þann mat sem fer til spillis hér heima." Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Laufey gefur stórar upphæðir til hjálparstarfs Rauða krossins. Í ársbyrjun gaf hún milljón til stuðnings fórnarlamba flóðbylgjunnar í Asíu og á síðasta ári gaf hún hálfa milljón í söfnunina Göngum til góðs til hjálpar börnum sem búa við ógnir stríðsátaka. Á einu ári hefur Laufey því gefið á þriðju milljón til hjálparstarfs. Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands segist hrærð yfir framlögum Laufeyjar. "Laufey er einstök kona með stór hjarta og geislar af mannkærleik og samfélagsvitund í víðum skilningi. Við erum henni afar þakklát."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×