Innlent

Fylgst með heimavist á Akureyri

Eftirlitsmyndavélum hefur verið komið upp víðs vegar á sameiginlegri heimavist Menntaskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, jafnt utanhúss sem innan. Lítil virðing er borin fyrir einkalífi framhaldsskólanema að mati íbúa heimavistarinnar. Myndavélar eru staðsettar við innganga og í sameiginlegum vistarverum nemenda, en á vistinni búa 330 manns. Að sögn íbúa er merkingum, sem segja til um að vöktun fari fram, ábótavant og mun nokkur fjöldi nemenda látið í ljós óánægju sína, meðal annars með formlegum kvörtunarbréfum til framkvæmdastjóra vistarinnar. Framkvæmdastjórinn, Guðmundur Magnússon, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í dag að vélarnar ættu að tryggja sem bestar og öruggastar heimilisaðstæður. Þó eru dæmi um að nemendur telji það ekki réttlæta að einkalíf þeirra sé virt að vettugi eins og það var orðað. Sá benti á að heimavistin er heimili nemendanna í níu mánuði ársins og skv. 7. grein laga um húsaleigubætur er heimavist skilgreind sem heimili. Það sé stjórnarskrárvarinn réttur hvers manns að njóta friðhelgi einkalífs á heimili sínu. Einnig eru gerðar athugasemdir við að herbergisskoðanir eru framkvæmdar hálfsmánaðarlega á vistinni til að kanna umgengni í herbergjum nemenda. Slíkar skoðanir fara þannig fram að starfsmaður bankar upp á. Ef ekki er komið til dyra innan nokkurra sekúndna er farið inn á herbergið. Nemdandinn segir að það hljóti að vera augljóst að þeir geti aldrei notið algjörrar friðhelgi ef þeir eiga á hættu að komið verði inn í herbergi þeirra hvenær dags sem er. Framkvæmdastjóri vistarinnar segir að vissulega séu í gildi strangar umgengnis- og agareglur sem hafi uppeldislegt gildi. Hann bendir jafnframt á þær séu kynntar nemendum áður en þeir flytja inn. Persónuvernd hefur bannað vöktun með öryggismyndavélum á göngum heimavistar Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki. Þar var sextán myndavélum komið fyrir. Sextán myndavéla kerfi var keypt fyrir heimavist Menntaskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, en vélarnar hafa þó ekki allar verið í notkun að sögn framkvæmdastjóra heimavistarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×